Víðgelmir


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Árið 1993 voru félagar úr Hellarannsóknarfélagi Íslands í könnunarferð í Víðgelmi. Einn þeirra sá þá syllu uppi í hellisveggnum sem hann klifraði upp í. Sá hann þar augljósar leifar eftir mannvist, svo sem eldstæði, dýrabein og við nánari skoðun þeirra félaga fundust glerperlur og skinnpjötlur á svæðinu. Var þá Þjóðminjasafninu gert viðvart sem sendi hóp fræðimanna á staðinn til að kanna betur. Í þessum leiðangri var hellirinn, syllan og fleira teiknað upp. Eldstæði fannst m.a. á staðnum en enginn umbúnaður hafði verið um það eins og búast hefði mætti við. Einnig fannst þar lítil steinahleðsla en erfitt var að álykta til um hlutverk hennar. Rannsakendur stinga þó upp á að þarna hafi verið byrjað að hlaða rúmbálkn sem ekki var lokið við. Engin gólfskán hefur myndast á staðnum sem bendir til þess að ekki hafi verið löng eða samfelld mannvist í hellinum. Sörvistölurnar (perlurnar) fundust ásamt leðurpjötlunum, en einnig fundust flögur úr jaspis sem hefur verið notaður til að kveikja eld, ásamt broti af bronsþræði. Beinin sem fundust á staðnum voru dreifð um gólfið, og flest voru það kúabein. Þau bera þess mörg merki að hafa verið elduð og borðað utan af þeim (hnífsmörk mátti sjá á beinunum). Athygli vakti að fjöldi beinanna er af kjötlitlum bitum, t.d. rifbein, skankar og höfuðbein. Aldursgreiningar á beinum og gripum úr hellinum benda til þess að hellirinn hafi verið notaður á 10. öld, og benda rannsakendur á að það líti út fyrir að hann hafi verið notaður í nokkra daga, þá mögulega sem felustaður.

Myndir

Nánari heimildir:

Guðmundur Ólafsson. (1994). Úr fylgsni fortíðar í hellinum Víðgelmi: Rannsókn 11. desember 1993. (Rannsóknarskýrslur fornleifadeildar 1993: III). Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.