Skáney í Reykholtsdal


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Um haustið 1934 var haft samband við Matthías Þórðarson þjóðminjavörð, um mannabein sem fundist höfðu í hól í túninu á Skáney í Reykholtsdal. Hóllinn var jafnan kallaður Gullhóll, en verið var að grafa gryfju í hann til að geyma kartöflur í þegar beinin komu í ljós. Matthías mætti á svæðið og gróf beinin upp sem hann telur hafa verið úr nokkrum einstaklingum en þau virtust ekki sérstaklega gömul af útlitinu að dæma. Hann segir beinin hafa verið úr tveimur til þremur fullorðnum karlmönnum og úr einu litlu barni. Í haugnum fann hann einnig tvö leirkerjabrot sem hann segir ekki virðast eldri en frá fyrri hluta 19. aldar og virðast hafa verið sett ofan í gryfjuna með beinunum á sama tíma. Matthías getur sér einnig til um að beinin komi mögulega úr kirkjugarði í nágrenninu og hafi verið sett í Gullhól eftir rask.

Myndir

Nánari heimildir:

Matthías Þórðarson. (1936). Rannsókn nokkurra forndysja o.fl.: Mannabein, fundin á Skáney í Reykholtsdal. Í Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1933 - 1936 (bls. 44 - 45). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.