Sumarið 1909 var Matthías Þórðarson, þjóðminjavörður, á skrásetningarferð um Borgarfjarðar- og Mýrarsýslu. Meðal þeirra staða sem hann heimsótti voru Bjarnastaðir, en Jónas Hallgrímsson hafði skrifað skýrslu um rústir sem sjáanlegar voru á svæðinu á fyrri hluta 19. aldar. Kristian Kålund hafði einnig getið um mannabein, sem voru að blása upp á Bjarnastöðum, í skýrslu sinni á síðari hluta 19. aldar, og nokkru síðar skoðar Brynjólfur Jónsson svæðið líka. Matthías nýtti því ferð sína og fór á staðinn til að kanna málið nánar. Í frásögn sinni talar Matthías um að í uppblásnu rjóðrinu séu sjáanlegar rústir eftir tvær byggingar og hefur verið byggt ofan í þær seinna meir, mögulega sauðahús þó Matthías sé ekki viss um það. Minni tóftin segir Matthías að sé mögulega kirkja en nærri tóftinni fann hann ryðgaðan nagla og lítið beinbrot. Aðeins austan við tóftina er steinabreiða, hvers steinar hafa verið fluttir á staðinn úr nágrenninu. Í þessari steinabreiðu fann Matthías leifar tveggja grunnra grafa. Nokkru grjóti og hellum var hlaðið við dysjarnar og voru stórir steinar í höfuðgafli þeirra beggja. Í annarri gröfinni fundust fúin beinabrot ásamt smáum tönnum úr dýri en í hinni fundust leggjarbein úr manni og fleiri beinabrot, en líklegt er að báðum gröfum hafi verið raskað á einhverjum tímapunkti. Þar sem engir gripir fundust í gröfunum áætlar Matthías að ekki sé um heiðnar grafir að ræða og leiðir líkum að því að þarna hafi verið byrjun kirkjugarðs.Athugið að skv. skýrsluheitum virðast Bjarnastaðir hafa verið rannsakaðir betur árin 1984, 1989 og 2000, en skýrslurnar sem gefa þetta til kynna eru týndar eða hafa aldrei verið gefnar út (skv. upplýsingum frá Bókasafni Þjóðminjasafnsins). Um ræðir skýrsluheitin 1984/12: **Fornleifakönnun á Bjarnastöðum í Hvítársíðu** / Þór Magnússon*; 1989/12: **Eyðibýlin Bjarnastaðir og Kötlutún í Kalmanstungu** / Guðmundur Ólafsson* og 2000/18: **Bjarnastaðir í Mýrasýslu, Borgarfirði. Rannsókn 18. og 19. ágúst**. / Guðrún Sveinbjarnardóttir, Helgi Þorláksson.*