Tveir menn, að öllum líkindum bændur, þeir Jón Jónsson og Magnús Jónsson, grófu árið 1837 í það sem þeir lýsa sem hól eða hæð í botni Mjóadals. Í haugnum fundu þeir mannstennur, mislitan klæðabút, tvær kúptar nælur, þríblaðanælu, sörvistölur og tvo kúfíska silfurpeninga (frá árunum 917-927). Ári síðar fór séra Þorsteinn Helgason einnig á staðinn til að kanna kumlið betur og fann mannabeinaleifar og ryðgaðan járnbút sem líktist stórum hnífi eða sverði.