Sumarið 2008 voru teknir könnunarskurðir í landi Gilsbakka í Hvítársíðu, undir handleiðslu Kevins P. Smith. Gerðir voru tveir könnunarskurðir og jarðvegssýnum safnað til greiningar. Minjarnar sem komu í ljós báru það augljóslega með sér að byggingarnar á svæðinu hafa reglulega verið rifnar og endurbyggðar í tímans rás, en auk þess eru skýr merki um búfjárræktun á svæðinu, þá helst kindarækt. Af jarðvegssýnunum að dæma virðist þó lítið hafa breyst hvað varðar neyslumynstur ábúenda á Gilsbakka, en Kevin segir að á 700-1100 árum hafi lítið breyst í matarræði heimilismanna auk þess sem sömu dýrin eru haldin á staðnum, en mannvistarleifarnar spanna frá því upp úr landnámi og ná fram yfir aldamótin 1900. Í könnunarskurðunum fundust ýmis dýrabein, bæði brennd og óbrennd, ásamt margs konar gripum m.a. úr járni, kopar, blýi, steinum o.fl. Auk þess fundust gjallbútar sem gefa hugmynd um að járn hafi verið unnið á staðnum, ásamt gripum tengdum vefnaðarframleiðslu, og gler- og keramikbrota sem aldursgreina má til 16. - 19. aldar. Samvkæmt upplýsingum um veitt uppgraftarleyfi, á vef Minjastofnunar, sést að Kevin hefur fengið uppgraftarleyfi til framhaldsrannsóknar á Gilsbakka 2009 (Minjastofnun, e.d.). Því miður hefur ekki verið gefin út skýrsla eða aðrar upplýsingar um það sem kom fram í uppgreftrinum það sumarið og ekki náðist í Kevin við vinnslu verkefnisins.