Reykholt


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Heilu hillumetrarnir hafa verið skrifaðar um sögu og uppgreftri í Reykholti en þorpið hefur verið fornleifafræðingum ofarlega í huga enda sögufrægur staður þar sem okkar helsti sagnaritari og höfðingi, Snorri Sturluson, bjó á 13. öld. Í heimildum kemur fram að Sigurður Vigfússon hafi rannsakað staðhætti í Reykholti árið 1884. (Sigurður Vigfússon, 1885) Árið 1941 rannsakaði svo Matthías Þórðarson, þjóðminjavörður, jarðgöngin sem lágu frá hinni rómuðu Snorralaug. Aðeins var hægt að skoða þann hluta ganganna sem var aðgengilegur án þess að hrófla við öðrum byggingum og vegum. Þá var einnig grafið í göngin árið 1947, en aðeins smáhluta þeirra. Matthías komst að því að göngin hafa verið hlaðin úr torfi og grjóti og hellulögð með móbergshellum. Göngin sjálf hafa svo verið nokkuð þröng og brött, en þau hafa mögulega verið um 85 cm að breidd. (Matthías Þórðarson, 1947). Árið 1964 rannsakaði Þorkell Grímsson forna neðanjarðarstokka frá hvernum Skriflu sem komu í ljós í Reykholti við vinnu, en í þessa stokka hefur verið veitt vatni eða gufu. Þorkell eyddi um 7 vikum í uppgröftinn og tók allnokkra könnunarskurði í stokkana. Tuttugu árum síðar, árið 1984, slóst Guðmundur Ólafsson í för með Þorkeli í nýjan rannsóknarleiðangur í Reykholt til að kanna stokkana betur. Ljóst var af rannsókn þessari að stokkarnir gegndu mismunandi hlutverki, og í það minnsta einn þeirra veitti vatni úr Skriflu í Snorralaug og annar þeirra hefur verið gufustokkur sem leiddi heita gufu frá Skriflu í vestur upp á bæjarhólinn. Guðmundur og Þorkell veltu svo fyrir sér hvaða hlutverki gufustokkurinn hafi gegnt en ekki var hægt að draga nákvæma ályktun um hlutverk hans af fornleifunum einum. Þeir stinga þó upp á að gufan hafi getað verið nýtt í t.d. soðhús, gufubað eða sem upphitun bæjarins í Reykholti. (Þorkell Grímsson og Guðmundur Ólafsson, 1988). Langstærsti og ítarlegasti uppgraftaraðilinn í Reykholti er þó Guðrún Sveinbjarnardóttir, en hún stundaði rannsókn í Reykholti á árunum 1987 til 1989 og svo aftur árin 1998 til 2003, og var tilgangur uppgraftarins að varpa ljósi á bæjarstæðið í Reykholti ásamt notkun og þróun þess í sögulegu og þverfaglegu samhengi. Þess má geta að aftur var uppgraftarsvæðið takmarkað vegna bygginga á staðnum en fullnaðaruppgröftur átti sér stað þar sem það var hægt. Til að gera langa sögu stutta fannst búseta á staðnum allt aftur til 10. aldar og var mannvistarleifunum skipt í sex skeið. Elstu leifarnar voru af mannvirkjum frá því um 1000 og fram á 12. öld, en meðal þeirra var t.d. skáli með langeldi, en lítið af gripum fannst í þessum fasa. Næsta byggingarskeið spannar 12. - 14. öld, eða tímann sem Snorri Sturluson hefur lifað á. Frá þessum tíma voru grafnar upp byggingar og mannvirki, stokkarnir sem áður hafa verið nefndir, jarðgöngin frá Snorralaug, smiðja, mögulegur virkisveggur o.fl. Áhugavert er hversu löng jarðgöngin í Snorralaug hafa verið, eða um 36 m, og komu þau upp í hringstiga inn í húsið. Ein bygging frá þessu tímabili hefur svo mögulega verið nýtt sem baðhús. Greiningar á ruslahaug sem lá yfir einum stokknum gáfu síðan til kynna að á þessu tímabili hafi heimamenn neytt byggs, hafra, krækiberja og arfa auk lamba-, nauta-, geita- og selkjöts ásamt fiski. Næsta byggingarskeið á eftir spannar svo 14. - 16. öld og var einn áhugaverðasti fundurinn þar búr með sáförum. Þá er komið að byggingarskeiði sem spannar 16. - 17. öld, en þar mátti m.a. finna leifar af gangabæ. Þá tekur við byggingarskeið sem spannar 17. - 19. öld, en í því mátti finna vel varðveittar leifar gangabæjar sem hefur verið jafnaður við jörðu og byggður að nýju vestar á bæjarhólnum árið 1833. Síðasta, og nýjasta, byggingarskeiðið nær fram á 20. öld en í því mátti finna útihús sem fylgdu bænum sem hafði verið fluttur vestar á 19. öldinni. Guðrún bendir á hversu áhugaverð fæð gripanna sem fundust við rannsóknina er, og hversu lítið fannst af „dýrgripum“ miðað við þá virðingarstöðu sem við gerum ráð fyrir að staðurinn hafi haft. Í mannvistarlögunum frá tímum Snorra fannst þó m.a. slípaður steinn úr porfíri sem hugsanlega hefur verið notaður við að fletja út vax til að skrifa á. Gripir og dýrabein á staðnum sýna fram á samband Reykholts við sjóinn (t.d. útfrá fiski- og selsbeinum sem þar fundust) og útlönd (gripir sem augljóslega koma utan frá eða hafa verið gerðir úr erlendu hráefni). Augljóst er samt sem áður að í Reykholti hefur dvalið hugsjónarfólk sem m.a. hefur verið það fyrsta á landinu til að nýta sér heita gufu til upphitunar. Næsta tilraun með slíkt var ekki gerð fyrr en í byrjun 20. aldar og þá í nágrenni Reykholts. (Guðrún Sveinbjarnardóttir, 2012).

Myndir

Nánari heimildir:

Sigurður Vigfússon. (1885). Rannsókn í Borgarfirði 1884: Reykjaholt. Í Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1884 - 1885 (bls. 113 - 124). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Matthías Þórðarson. (1947, 20. júlí). Reykholt: Yfirlit yfir sögu þess til og um daga Snorra Sturlusonar. Morgunblaðið, bls. 5-7.
Þorkell Grímsson og Guðmundur Ólafsson. (1988). Fornar leiðslur í Reykholti í Borgarfirði. Í Inga Lára Baldvinsdóttir (ritstjóri), Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1987 (bls. 99 -122). Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag.
Guðrún Sveinbjarnardóttir. (2012). Reykholt. Archaeological investigations at a high status farm in Western Iceland. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands og Snorrastofa.