Háls í Hálsasveit


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Þegar hefjast átti handa við fornleifarannsóknirnar í Reykholti árið 1987 var tilvalið að skoða fleiri miðaldabæjarstæði í nágrenninu til að fá gott samhengi milli minjanna. Þá var ákveðið að ráðast í rannsókn á Hálsi í Hálsasveit einnig. Kevin P. Smith hélt utan um fornleifarannsóknina á Hálsi sem fóru fram árin 1987-1988, 1991 og 1996-1997. Því miður virðist sem Kevin hafi aðeins gefið út skýrslu um fyrsta rannsóknartímabilið, en skv. heimildum frá Fornleifavernd, sem starfaði á sínum tíma undir menntamálaráðuneytinu, fékk Kevin einnig uppgraftarleyfi á Hálsi sumrin 1991 (könnunarholur), ásamt 1996 og 1997 (fornleifarannsókn) (Björn Bjarnason, 1999). Ekki náðist í Kevin Smith til að gefa nánari upplýsingar um niðurstöður seinni uppgraftartímabilanna.

Á fyrsta rannsóknartímabilinu (1987-1988) var minjasvæðið teiknað upp ásamt því að taka jarðvegssýni og gera könnunarskurð í aðalrústina. Á svæðinu voru fjórar rústir, fjórir hlaðnir garðar ásamt tveimur dældum í landslaginu sem gætu verið af mannavöldum. Gáfu minjarnar til kynna að hér væri um að ræða bæjarstæði frá miðöldum (eða 11. öld), sem hefur lagst í eyði á 14. öldinni. Kevin leggur til að rústirnar fjórar séu af bæjarhúsi, sem var rúmir 20 metrar á lengd, um 8 metrar á breidd og skiptist í þrjú rými, lítið útihús, fjárhús eða fjós og að lokum hringlaga torfvegg sem var um 5 metrar í þvermál. Ekki fundust margir gripir í könnunarrannsókninni fyrstu tvö sumrin en áhugavert var að samkvæmt greiningum á jarðvegssýnum hefur norskur viður verið nýttur sem eldiviður stuttu áður en bærinn lagðist í eyði. Þetta sýnir tengslin á milli landanna en ekki er ljóst hvort ábúendur bæjarins hafi brennt dýrmætan norskan við af illri nauðsyn eða vegna þess að um var að ræða vel stætt fólk sem hafði ráð á slíku (Smith, 1988).#Eins og áður sagði hefur Kevin ekki gefið út skýrslur um uppgreftrina sem fóru fram árin 1991 og 1996-1997 en hægt er að lesa viðtal við hann í Morgunblaðinu, sem tekið var sumarið 1996, til að fá hugmynd um hvað verið var að grafa upp á svæðinu þá. Svo virðist sem þó nokkrar leifar af gjalli hafi fundist á svæðinu á þessum tíma. Gjallið verður til við járnvinnslu og virðist vinnsla þess hafa hafist á svipuðum tíma og bærinn var byggður. Í viðtalinu segir Kevin að býlið hafi takið nokkrum breytingum meðan það var notað, verið rifið og endurbyggt, en það hafi svo verið yfirgefið í lok 13. aldar. Járnvinnslusvæðið hefur verið nokkuð stórt miðað við aðra járnvinnslustaði sem fundist hafa á landinu, en ekki var víst á þessum tíma hvort um var að ræða járnvinnslu til einkanota eða til framleiðslu söluvara. Áhugavert þykir að járnvinnsla þarfnast mikils magns viðar til brennslu sem þýðir að nokkur trjágróður hefur þurft að vera á svæðinu (og bendir Kevin einmitt á að upplýsingar um skóg á svæðinu komi fram í rituðum heimildum frá 13. öld). Ekki er þó ljóst á þessum tíma hvað varð til þess að bærinn lagðist í eyði (Rannsakar járnvinnslu á miðöldum, 1996).

Myndir

Nánari heimildir:

Björn Bjarnason. (1999). Menntun þeirra sem hafa leyfi til fornleifa­rann­sókna: 982 svar, menntamálaráðherra, Björn Bjarnason. Sótt 29. ágúst 2020 af https://www.althingi.is/altext/123/s/0982.html
Rannsakar járnvinnslu á miðöldum. (1996, 5. júlí). Morgunblaðið, bls. 10.
Smith, Kevin P. (1988). Archaeological Investigations at Háls, Hálsasveit, Borgarfjarðarsýsla, Iceland: First Preliminary Report, 1987-1988. Michigan: Museum of Anthropology, University of Michigan.