Blundketilsskáli


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Árið 1884 fór Sigurður Vigfússon, þjóðminjavörður, í rannsóknarleiðangur um Borgarfjörðinn. Á leið sinni skoðaði hann hina ýmsu sagnastaði og sjáanlegar rústir sem hann annað hvort gróf í eða lýsti betur út frá yfirborðskönnunum. Einn þeirra staða sem hann gerði rannsókn á var skáli skammt frá bænum Örnólfsdal í Borgarfirði. Tóftin sem um ræddi stóð á hól sem kallaður var Sjónarhóll. Sigurður lýsir tóftinni sem mjög langri, niðursokkinni og útflattri. Hann fékk þrjá menn með sér til að gera fimm könnunarskurði í rústirnar haustið 1884. Þeir nýttu einn dag í verkið og fundu fyrir ýmsar minjar sem renndu stoðum undir kenninguna að þarna væri um skála Blundketils að ræða, en samkvæmt sögunni á sá bær að hafa brunnið í Blundketilsbrennu á 10. öld. Nægar brunaleifar virðist Sigurður hafa fundið en hann talar um hina ýmsu tegundir ösku sem fannst í fjórum af könnunarskurðunum fimm, m.a. viðarösku, rauða ösku, rofaösku, gjall, brunna steina og dýrabein. Einnig bendir Sigurður á að veggjarhrun rústarinnar sé einkennilegt. Hann bendir á að hrunið sé svo mikið að það virðist sem veggirnir hafi fallið á stuttum tíma, líkt og í bruna, frekar en að skálinn hafi orðið náttúrunni að bráð og veggirnir þá hrunið hægt í tímans rás. Einnig fundust leifar brunns skammt frá tóftinni, en í hann hefur verið sótt neysluvatn.

Myndir

Nánari heimildir:

Sigurður Vigfússon. (1885). Rannsókn í Borgarfirði 1884: Örnólfsdalur, Blundketilsbrenna. Í Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1884 - 1885 (bls. 135 - 137). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.