Árin 1960 - 1966 hélt Þorkell Grímsson utan um stóran fornleifauppgröft við Reyðarfell, skammt frá Húsafelli. Á gamla túni bæjarins mátti sjá í það minnsta 7 tóftir og var grafið í þá stærstu, þ.e. íbúðarhúsið. Húsarústin sem grafin var upp var samsett úr 4 herbergjum sem sjá má á teikningu hér við. Inngangurinn er neðst á teikningunni fyrir miðju, þá er skálinn hægra megin við anddyrið (vestast) en í honum voru flet upp við veggina, stofan vinstra megin og baðstofa í útbyggingunni til suðurs. Skemma hefur svo verið í rýminu lengst til vinstri á teikningunni (austast). Rústin öll er um 27 metrar á lengd og 16 metrar á breidd og hafa útveggir verið úr torfi og grjóti. Gólf hússins hefur verið hellulagt að hluta, með eldstæðum og bera minjarnar þess merkis að veggir hafi mögulega verið þiljaðir. Í skemmunni fundust leifar járnofna og gjalls, en ýmsir gripir fundust, m.a. brýni, naglar og lás með miðaldasniði. Eldri minjar eru líklega undir skálanum því Þorkell og félagar fundu þar leifar gangs úr torfi.