Skallagrímshaugur


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Sumarið 1896 var Brynjúlfur Jónsson, fræðimaður, á rannsóknarferð m.a. í Borgarfirði. Hann skoðaði þá hinn svokallaða Skallagrímshaug í Borgarnesi (sem áður fyrr var kallað Digranes). Í frásögn sinni segir hann frá fyrri tilraunum til að grafa í hauginn, sem staðsettur er í Skallagrímsdal. Árið 1866 höfðu bændur í nágrenninu rofið hauginn (sem þó hafði verið grafið í áður skv. munnmælum). Haugurinn var skv. bændunum ávöl grjóthrúga með stóru bjargi á toppnum. Þeir veltu bjarginu af en undir því var steinþró full af sandi og aur. Þeir fjarlægðu grjót og jarðveg ofan af haugnum þar til þeir komu niður á móhellu en á botni hennar mátti sjá miklar járnleifar, en ekkert bein eða aðra gripi. Bændurnir virðast ekki hafa grafið neðar en þetta. Í ferð sinni lét Brynjúlfur þá grafa ofan af haugnum aftur en bætir litlu við frásögn bændanna öðru en að hann hafi fundið í haugnum brot af hesttönn. Hann bendir á að skv. sögunni hafi hestur Skallagríms verið grafinn með honum og gæti þetta brot verið úr þeim hesti, eða að hesturinn hafi verið grafinn í þessum haug og Skallagrímur sjálfur annars staðar. Brynjúlfur vill þó ekki staðhæfa neitt um slíkt þar sem engar aðrar minjar var að finna sem mætti draga frekari ályktanir út frá.

Myndir

Nánari heimildir:

Brynjólfur Jónsson. (1897). Rannsókn í Mýra- Hnappadals- og Snæfellssýslum sumarið 1896: Skallagrímshaugur. Í Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1897 (bls. 6 - 8). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.