Reykholtssel í Kjarardal


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Sumarið 2005 voru grafnir nokkrir könnunarskurðir og -holur á svæði Reykholtssels í Kjarardal, norðan við Hvítársíðu. Sumarið áður höfðu 15 könnunarholur verið gerðar skipulega til að fá yfirlit yfir rústasvæðið. Rannsókninni stjórnaði Guðrún Sveinbjarnardóttir, sem einnig fór fyrir Reykholtsverkefninu, og var þessi rannsókn tengd því verkefni. Í skýrslu Guðrúnar segir um tilgang rannsóknarinnar: „Meðal rannsóknarefna er rekstur staðarins í Reykholti á miðöldum og fyrri hluta nýaldar, en í því sambandi er mikilvægt að kanna búnaðarsögu Reykholts. Mikilvægur þáttur í henni er að varpa ljósi á efnahagslegt gildi seljabúskapar fyrir rekstur stórbýla og útskýra hvaða breytingar ollu því að seljabúskapur lagðist af.“ (Guðrún Sveinbjarnardóttir, 2005, bls. 4). Reykholtssel er eitt margra selja í nágrenninu sem hafa verið tengd Reykholti og því mjög áhugavert að fá betri sýn á tilgang og hlutverk þeirra. Þar sem þessi rannsókn fór aðeins fram með könnunarskurðum voru niðurstöðurnar litlar fyrir heildarsamhengi seljabúskapsins út frá Reykholti, en skýrar byggingarleifar komu hins vegar í ljós. Tóftirnar voru þó það grónar að erfitt var að átta sig á heildarútliti þeirra út frá könnunarskurðunum, eða aldri þeirra. Guðrún mælir með að staðurinn yrði grafinn upp í heild sinni, en bendir á að það yrði dýrt verkefni og flókið í framkvæmd. Hún mælir einnig með að fyrst yrðu tekin ýmiss konar sýni af staðnum til að ákvarða aldur og hlutverk minjanna betur.

Myndir

Nánari heimildir:

Guðrún Sveinbjarnardóttir. (2005). Reykholtssel í Kjarardal: Fornleifarannsókn 2005. (Vinnuskýrslur fornleifa 2005: 4). Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.