Surtshellir og Vígishellir (afhellir Surtshellis)


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Í september árið 2001 fór fram björgunarrannsókn, á vegum Þjóðminjasafnins, í einum afhellis Surtshellis, sem oft er kallaður Vígishellir eða Beinahellir. Rannsóknin var gerð undir handleiðslu fornleifafræðinganna Guðmundar Ólafssonar, Agnesar Stefánsdóttur og Kevins Smith, en mikill ágangur ferðamanna var m.a. hvatinn að rannsókninni. Þessa daga skoðuðu fornleifafræðingarnir mannvirki sem hafði verið hlaðið inni í hellinum og mannvistarleifar sem fundust þar (m.a. dýrabein), ásamt því að rannsaka snið í hellinum. Örþunn gólfskán var einnig skoðuð en í henni fundust m.a. jaspisbrot til eldar ásamt rusli eftir ferðamenn síðustu alda. Jaspisbrotin virðast hafa komið frá mismunandi stöðum á landinu sem gæti bent til þess að í hellinum hafi dvalist fólk sem kom víða að. Margt við mannvirkið virtist minna á víkingaaldarskála, svo sem bogadreginn veggur þess, en annað benti til yngri byggingar, t.d. staðsetning eldstæðis sem var ekki fyrir miðju mannvirkisins heldur virðist það hafa verið í hólfi inni í gafli mannvirkisins. Bein úr beinahrúgu voru einnig send í aldursgreiningu og virðast þau vera frá f. hl. 10. aldar. Gott safn dýrabeina bendir til þess að þarna hafi hellisbúar neitt afurða kinda, kúa, hesta og svína, en eftirtektarvert er að engar leifar fiska, skelja eða fugla fyrirfundust á svæðinu. Það getur þýtt að lítið hafi verið sótt til sjávar af þeim sem höfðust við í hellinum (Guðmundur Ólafsson, Kevin P. Smith og Agnes Stefánsdóttir, 2004).

Árin 2012 og 2013 hélt björgunarrannsóknin áfram undir handleiðslu sömu fornleifafræðinga að mestu. Nú var t.d. gólfskánin í Vígishelli rannsökuð betur, en í henni fundust m.a. 40 glerperlur, blýlóðasett, jaspis og aðrir eldsláttusteinar. Eldstæðið var einnig rannsakað nánar og fengust vísbendingar um að það hafi í raun upphaflega verið fyrir miðju híbýlisins, líkt og algengt var í víkingaaldarbústöðum. Eldstæðið sem áður var talað um hefur líklega verið til komið vegna heimsókna í hellinn á þessari og síðustu öld. Í Surtshelli fundust tvær hrúgur af óbrenndum, brotnum dýrabeinum til viðbótar og eru þær hrúgur nú orðnar sjö talsins (og hafa fundist víðs vegar um hellinn, að afhellunum meðtöldum). Þessar hrúgur virðast allar vera frá víkingaöld skv. aldursgreiningum. Slíkar greiningar gefa því til kynna að hellirinn hafi verið notaður í a.m.k. 80 ár á 10. - 11. öld, en hann hafi þá verið yfirgefinn (Agnes Stefánsdóttir og Ásta Hermannsdóttir, bls. 14-15).

Myndir

Nánari heimildir:

Guðmundur Ólafsson, Kevin P. Smith og Agnes Stefánsdóttir. (2004). Rannsókn á minjum í Surtshelli. (Rannsóknaskýrslur Þjóðminjasafns 2001: VIII). Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.Agnes Stefánsdóttir og Ásta Hermannsdóttir. (2016). Surtshellir í Kalmanstungu. Í A. Stefánsdóttir og Á. Hermannsdóttir (ritstjórar), Yfirlit yfir fornleifarannsóknir: 2013 (bls. 14 - 16). Reykjavík: Minjastofnun Íslands.