Lundur


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Upp frá bænum Lundi í Lundarreykjadal voru sýnilegar tóftir sem lengi vel voru kallaðar hoftóftir í tali manna. Árið 1884 fór Sigurður Vigfússon, fornleifafræðingur, á staðinn og gróf tóftirnar upp á einum degi. Sigurður segir að tóftin hafi verið mikið gróin og niðursokkin sem bendir til þess að hún hafi verið nokkuð gömul, en afhús var einnig áfast henni í austurátt. Fjórir menn aðstoðuðu Sigurð við uppgröftin en aðalhús tóftarinnar segir hann hafa verið 60-72 fet (ca. 18-22 m) að lengd og um 25 fet (ca. 7,5 m) að breidd, ásamt því að í aðalbyggingunni hafi verið steinaröð í gólfinu eftir miðju hennar og önnur röð þvert á hana (T-laga hellulagning sem náði þá yfir hálft húsið) en í afbyggingunni hafi gólfið verið nokkurn veginn allagt steinum. Sigurður stingur upp á að steinleggingarnar í aðalbyggingunni hafi verið undir langeld. Sigurður varð ekki var við nein ummerki eftir dýrahald eða eiginlega gólfskán í byggingunni, hvorki aðal- né afbyggingunni. Hann gróf þó ekki tóftina í burtu og skildi eftir ógrafna hluta á nokkrum stöðum. Árið 1939 gróf svo finnski fornleifafræðingurinn Voionmaa tóftina aftur upp, og nostraði þá meira við uppgröftinn heldur en kollegi hans, Sigurður, hafði leyft sér. Voionmaa var þó á annarri skoðun en Sigurður um notagildi byggingarinnar, en hann telur þarna hafa verið bæ, þ.e. íveruhús. Kristján Eldjárn, sem skoðaði tóftina árið 1964, slæst svo í hóp gagnrýnenda og staðhæfir að þarna sé um að ræða fjós og hlöðu, og að ekkert annað komi til greina miðað við staðsetningu bygginganna uppi í brattri brekkubrún, auk þess sem hellulagnirnar í miðju aðalhússins virðast vera fyrir flórinn og vera vísir að básum (þó óreglulegum). Kristján segir einnig að ekkert hafi þarna fundist af gólflagi né eldstæði eða ösku sem fellir þá kenningu Sigurðar um að hellurnar hafi verið eldstæði eða fyrir langeld. Hann segir einnig að byggingarnar séu líklega frá fornöld eða miðöldum þó ekki sé hægt að áætla nákvæma tímasetningu þeirra. Kristján veltir jafnframt upp þeirri hugmynd að þarna hafi ekki verið fullbyggt hús heldur aðeins hlaðnir veggir, eða veggjarraðir eftir jörðinni sem voru vísir að byggingunum.

Myndir

Nánari heimildir:

Sigurður Vigfússon. (1885). Rannsókn í Borgarfirði 1884: Hoftóttin á Lundi í Syðra-Reykjadal. Í Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1884 - 1885 (bls. 97-103). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
Voionmaa, Jouko . (1943). Lundur, Borgarfjarðarsýsla. Í Forntida gårdar i Island: Nordiska arkeologiska undersökningen i Island 1939 (bls. 171 - 190). Kaupmannahöfn: Ejnar Munksgaard.
Kristján Eldjárn. (1965). Athugasemd um fornar tóftir á Lundi í Lundarreykjadal. Í Kristján Eldjárn (ritstjóri), Árbók Hinz íslenzka fornleifafélags: 1964 (bls. 102 -110). Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.