Ísleifsstaðir


Mannvistarleifar

Umfjöllun

Árið 1939 hóf hópur innlendra og erlendra fræðimanna uppgraftarsyrpu á Íslandi. Mest var áherslan lögð á uppgröft fornra bæja í Þjórsárdaln en einnig voru nokkrir staðir rannsakaðir í Borgarfirði. Þeirra á meðal voru Ísleifsstaðir en Mårten Stenberger hafði umsjón með uppgreftrinum. Uppgraftarsvæðið var á sléttu suður af Örnólfsdalsá, um 4-500 metrum austan við Norðtungu, þar sem Sleggjulækur rennur út í ána. Stenberger gróf þar upp tvær tóftir. Sú vestari var um 14 m löng og 6 m á breidd, hlaðin úr torfi eingöngu, og að öllum líkindum útihús. Eystri tóftin var flóknari, en þar hafa byggingar verðir byggðar ofan í eldri leifar. Um ræðir skála sem hefur verið um 17 m að lengd og 5 m að breidd að innanmáli, gólf hefur verið hellulagt að hluta og mögulega hafa veggir verið þiljaðir þar sem steinaröð fylgdi útlínum veggjanna. Einnig kemur Stenberger með þá tilgátu að herbergi hafi verið afstúkuð með þiljum hvort í sínum enda skálans. Á gólfi hefur einnig verið langeldur en nokkuð magn ösku og viðarkola fannst í skálanum sem gefur til kynna að hann hafi mögulega brunnið. Þessi bygging var auk þess byggð ofan í í það minnsta tvö eldri byggingarlög svipaðra skála, og nær því byggingarsaga staðarins hugsanlega aftur til landnámsaldar. Undir elsta byggingarfasanum fann Stenberger viðarkol og leifar af birkitrjám sem mögulegir landnámsmenn hafa þá væntanlega brennt og fellt þegar fyrsti skálinn var reistur. Nokkrir gripir fundust á svæðinu, en lítið sem hægt var að nota til aldursgreiningar. Þá fundust aðallega illa farnir járngripir á borð við hnífa og sylgjur o.s.frv., en einnig brýni og snældusnúðar úr steini. Auk þess fannst eitt met sem ætla má að sé frá víkingaöld.

Myndir

Nánari heimildir:

Mårten Stenberger. (1943). Ísleifsstaðir, Borgarfjarðarsýsla. Í Forntida gårdar i Island: Nordiska arkeologiska undersökningen i Island 1939 (bls. 145 - 170). Kaupmannahöfn: Ejnar Munksgaard.